Íslenskt tónlistarlíf verður í fyrirrúmi í Lestinni í dag. Iceland Airwaves sigldi inn í sitt tuttugasta aldursár í gærkvöldi og útsendari Lestarinnar var að sjálfsögðu á staðnum. Davíð Roach lítur við og fer yfir fyrsta kvöld hátíðarinnar og það sem koma skal.
Nú í haust fengu níu litlir tónleikastaðir og menningarhús sem sinna lifandi tónlistarflutningi styrk úr nýjum úrbótasjóði tónleikastaða í Reykjavík. Sjóðurinn er runninn undan rifjum Tónlistarborgarinnar í Reykjavík og hlutverk hans að styðja við tilvist minni og miðlungsstórra tónleikastaða í borginni. Við ræðum um mikilvægi þess að styðja við innviðina til að skapa hagstæð skilyrði fyrir gróskumikið tónlistarlíf við Maríu Rut Reynisdóttur verkefnastjóra Tónlistarborgarinnar Reykjavík.
Fyrr á tímum var orðið móðursýki læknisfræðilegt hugtak. Orðið var síður en svo hjálplegt, enda kynjapólitískt í eðli sínu og notað gegn jafnréttisbaráttu kvenna, þær gætu eftir allt ekki stjórnað tilfinningum sínum fyrir móðursýki, hysteríu. Fyrr á tíðum voru „hysterískar“ konur oft lagðar inn á geðspítala gegn sínum vilja og leg þeirra jafnvel fjarlægt. Þó orðið sé í dag síður notað í læknisfræðinni lifir það enn í félagslegu samhengi, oft sem einskonar skammaryrði. Rapparinn Countess Malaise hefur upplifað slíka skömm á eigin skinni og er hún viðfang hennar fyrstu plötu, Hysteríu, sem út kom á dögunum. Greifynjan, sem heitir réttu nafni Dýrfinna Benita, tekur sér far með Lestinni í dag.