Hvernig lítur hin fullkomna móðir út? Er hún hvít, ófötluð, gagnkynhneigð? Tilheyrir hún millistétt? Efri millistétt? Sendir hún öll börnin sín í Hjallastefnuna og fiðlunám? Heldur hún alltaf augnsambandi? Við ræðum við fræðikonurnar Auði Magndísi Auðardóttur og Önnudís Gretu Rúdólfsdóttur fræðikonur á menntavísindasviði Háskóla Íslands um hugtakið áköf mæðrun.
Það sem þú þráir er ný skáldsaga eftir Sjöfn Asare sem kom út á hljóð- og rafbók hjá Storytel á dögunum. Sagan fjallar um unga konu á krossgötum, ástina, ranghugmyndir og þráhyggju en líka ljót leyndarmál og hið ósagða. Í upphafi er þetta saga af Gunnlöðu sem gerist au-pair á heimili Perlu og Sölva í London. Út á við eru þau farsæl, rík og hamingjusöm, eiga dásamleg börn og búa við vellystingar. Gunnlöð er leitandi, forvitin manneskja, hrifnæm - hún á flókið samband við sína fjölskyldu heima á Íslandi og byrja upp á nýtt en samt svona ung - held bara að flest rétt rúmlega tvítug tengi við það að vilja stöðugt endurnýja og prófa. En að sjálfsögðu er ekki allt sem sýnist.
Við segjum líka frá nýju lagi Lönu Del Rey, A&W en söng- og tónlistarkonan gefur út nýja plötu í lok mars.