Það er ekki sama hverju maður klæðist. Lóa fann skyrtu á bás í Hringekjunni, búð sem selur notaðar flíkur, sem hafði verið áður í eigu umsvifamikils kaupsýslumanns. Þegar hún klæðist skyrtunni fær hún lánað brot af sjálfsöryggi hans. Í Lestinni í dag söfnum við saman svipuðum sögum fólks af flíkunum sem þau klæðast þegar mikið stendur til.
Hönnunarhátíðin Hönnunarmars hófst í dag í Reykjavík. Það er margt um að vera og hönnuðir kynna afurðir sínar víða um borgina. Fatnaðar, nytjahlutir, hugmyndir og matur eru meðal þess sem boðið verður upp á. Við kíkjum í Ásmundarsal þar sem hönnunartvíeykið Grugg og Makk var að setja upp í hádeginu, en þeir ætla að kynna nýjan villibjór sem ræktaður er úr örverum úr nýju hrauni.
Spænski kvikmyndagerðarmaðurinn Pedro Almodovar er einn dáðasti leikstjóri Evrópu. Um þessar mundir má sjá 23. kvikmynd Almodóvars, Madres Paralelas, Samhliða mæður, í Bíó Paradís. Kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar Gunnar Ragnarsson er forfallinn aðdáandi og var því spenntur að kíkja á ræmuna.