Um helgina flykkjast furðuverur í Fífuna, Kópavogi. Undir niðri - undir búningunum það er - eru verurnar auðvitað venjulegt fólk - ósköp venjulegir nördar, myndu einhverjir segja. Þær eru á leið á Midgard ráðstefnuna að spila borðspil og tölvuleiki, LARPA og kynna sér allt það besta sem njarðheimar hafa upp á að bjóða. Í Lestinni í dag fræðumst við um Midgard-ráðstefnuna.
Við veltum líka fyrir okkur sjálfvirkri andlitsgreiningu með breska listamanninum Jake Laffoley. En hann stendur fyrir sýningunni Biometric Exit í sýningarrýminu Midpunkt um þessar mundir.
Halldór Armand Ásgeirsson flytur pistil um hinsegin athyglisviðskipti og það sem kallað hefur verið "woke-washing"
Borgarstjóri í Brasilíu reyndi á dögunum að banna teiknimyndasögu af því að hún sýnir tvo karlmenn kyssast. Uppátækið þykir ekki aðeins lýsa miklum fordómum og fáfræði heldur einnig algjörri vanþekkingu á kristinni listasögu þar sem allt úir og grúir í samkynhneigðri ástleitni.