Hljómsveitin Jeff Who stimplar sig inn með barflugunni sinni, Hjálmar skipta tveimur Svíum inn á, Leaves er undir álögum en Sigur Rós segir TAKK.
Bubbi Morthens gerir upp fortíðina með tveimur plötum, Baggalútur gefur út kántrýplötu, Hera safnar fjöðrum í poka en hús datt á Megasukk.
Dr. Spock kynnir gulan uppþvottahanska til leiks, Trabant gefur í, Skítamórall snýr aftur, Nylon stúlkurnar eru í útrás og Buff er hamingjusöm hljómsveit.
Svala Björgvins leitar til vina og vandamanna á sinni annarri sólóplötu, Hölt hóra heldur brjálað partý og Hot Damn segir sögu af óvæntu ævintýri í Amsterdam.
Daníel Ágúst og Rúnar Þóris gera sólóplötur, Siggi Ármann syngur um fílamanninn og Hljómsveitin Ég gefur út plötu ársins.
Árið er 2005
Seinni hluti tuttugasta og þriðja þáttarins í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 laugardaginn 23. nóvember og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 24. nóvember kl. 22.05.
Meðal viðmælenda í seinni hluta umfjöllunar um íslenska tónlistarárið 2005 eru Bjarni Hall, Elís Pétursson, Daníel Ágúst Haraldsson, Arnar Guðjónsson, Arnar Ólafsson, Guðmundur Kristinn Jónsson, Bubbi Morthens, Jakob Frímann Magnússon, Einar Bárðarson, Þorvaldur Gröndal, Ragnar Kjartansson, Róbert Örn Hjálmtýsson, Jón Þór Birgisson, Kjartan Sveinsson, Kári Sturluson, Freyr Eyjólfsson, Óttar Proppé, Guðni Fransson, Arnar Gíslason, Hera Hjartardóttir, Bragi Valdimar Skúlason, Svala Björgvinsdóttir og Víðir Björnsson.