Við lítum til baka yfir farinn veg í Lestinni í dag og rifjum upp þrjú innslög sem öll eiga það sameiginlegt að vera innlegg í menningarumræðuna. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir rýndi í raunveruleikaþættina LXS og velti fyrir sér hvort að um branded entertainment, svokallað markað skemmtiefni, væri að ræða. Í apríl bárust fréttir af stolinni bronsstyttu, styttunni af Guðríði Þorbjarnardóttur og syni hennar Snorra, sem ber heitið Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku. Kristján Guðjónsson hitti listakonurnar Bryndísi Björnsdóttur og Steinunni Gunnlaugsdóttur og ræddi við þær um verk þeirra fyrsta hvíta móðirin í geimnum. Styttuþjófnaðurinn og verkið voru sennilega með umdeildari listgjörningum á árinu sem er að líða. Davíð Roach flutti pistil í október um Fossora, nýjustu plötu Bjarkar Guðmundsdóttur. Davíð var ekki hrifinn af plötunni og í kjölfarið spruttu upp umræður um tónlistargagnrýni og hvort þetta flokkaðist yfirhöfuð sem slík.