Auðugir velunnarar, svokallaðir patrónar, hafa í gegnum tíðina verið einir mikilvægustu bakhjarlar vísinda og listsköpunar. En að undanförnu hefur nýtt kerfi velunnara sprottið upp á vefsíðum á borð við Patreon.com, þar sem aðdáendur geta styrkt skapandi einstaklinga með mánaðarlegum greiðslum. Í Lestinni í dag kynnum við okkur smá-patróna internetsins.
Einu sinni mátti allt - nema kannski pissa bakvið hurð. Í dag virðist staðan flóknari. Ný kynslóð kallar eftir breytingu á gildum, hegðun og tjáningu og stundum stendur sú eldri eftir með góðar meiningar en sárt ennið. Hefur pólitískur rétttrúnaður „gengið of langt“? Má ekkert lengur? Við köfum í kynslóðabil og „það sem ekki má" í Lestinni í dag.
Og Davíð Roach Gunnarsson rýnir í nýja plötu bandaríska rapparans Danny Brown, U Know what I'm sayin?