Undanfarna daga hafa Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður og Ingvar Haukur Guðmundsson tökumaður flutt fréttir fyrir ríkisútvarpið frá Úkraínu. Fréttir þeirra hafa vakið mikla athygli, fyrst þegar Ingólfur Bjarni varð klökkur í beinni útsendingu daginn sem innrásin hófst, þegar hann lýsti viðbrögðum venjulegs fólks sem þeir hittu í höfuðborginni. Síðan þá hafa reglulega birst innslög frá þeim félögum, fyrst frá Kænugarði og síðan eftir að ástandið versnaði þar, úr bílalest á þjóðveginum frá borginni, og síðan frá landamærunum þar sem fjöldi Úkraínumanna reynir að komast úr landi. Nokkuð hefur borið á gagnrýni á samfélagsmiðlum að í stað þess að varpa ljósi á ástandið, beina myndavélunum að umhverfinu og hljóðnemanum að heimafólki, hafi bjarmalönds fréttamannanna sjálfra verið helsta umfjöllunarefnið. Við ræðum við Þóru Arnórsdóttur um stríðsfréttaritun og sjálfhverfa fréttamennsku.
Við ræðum við Tönju Björk Ómarsdóttur leikkonu sem leikur íslensku kappaksturskonuna Aðalbjörgu í kvikmyndinni Vélarniður, Les Bruit des Moteurs, sem var lokamynd Franskrar kvikmyndahátíðar í Bíó Paradís. Tanja er tilnefnd til Kanadísku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna fyrir leik sinn í myndinni.
Og við heyrum pistil frá Sölva Halldórssyni um þá frómu list að bíða.