Þættirnir Venjulegt Fólk sem fjalla um leikara-vinkonurnar Völu og Júlíönu og allt venjulega fólkið í kringum þær hafa notið mikilla vinsælda. Þættirnir hófu göngu sína árið 2018 og nú er fjórða serían komin á Sjónvarp Símans. Fannar Sveinsson, sem oft er kenndur við hraðfréttir, leikstýrir þáttunum. Hann sest um borð í Lestina í dag og útskýrir af hverju Venjulegt fólk eru ekki bara hreinræktað grín.
Davíð Roach Gunnarsson sökkvir sér ofan í feril og hljóðheim breska raftónlistarmannsins Bonobo, en nú á dögunum kom út ný breiðskífa frá kappanum, platan Fragments.
Við heyrum líka um nýjustu viðbótina í Marvel-söguheiminn, sjónvarpsþáttaröðina Hawkeye sem eru aðgengilegir á Disney Plús. Salvör Bergmann fjallar um Auga hauksins og hugmyndafræði ofurhetjumyndanna.