Tæpum áratug eftir að við sögðum skilið við fyrsta kvenforsætisráðherra Danmerkur Birgitte Nyborg snýr hún aftur í fjórðu þáttaröðinni af Borgen. Þetta stjórnmáladrama heltók dönsku þjóðina og síðar heimsbyggðina. Við spjöllum við Birtu Björnsdóttur, fréttamann, um hvað þættirnir segja okkur um danska stjórnmálamenningu.
Í janúar 2021 skellti Stöð 2 í lás. Eða þannig upplifðu margir það, þegar ákveðið var að framvegis myndu aðeins áskrifendur geta horft á sjónvarpsfréttirnar sem fram að því höfðu verið í opinni dagskrá. Ákvörðunin vakti spurningar um lifibrauð fjölmiðla, um lýðræðishlutverk fjórða valdsins en þó kannski fyrst og fremst hvort þetta væri einu sinni góð hugmynd. Myndi Stöð 2 lifa þetta af? Ári síðar segir Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sýnar, að svarið sé já - og vel það.
Davíð Roach fjallar um velsku tónlistarkonuna Cate Le Bon og nýja plötu hennar, sem ber titilinn Pompeii. Þetta er sjötta breiðskífan sem Le Bon sendir frá sér - titillinn hljómar heimsendalega en gagnrýnendur hafa hafið hana til skýjanna - Davíð Roach segir okkur frá þessum áhugaverða listamanni og af einhverjum ástæðum, geitinni hennar.