Halldór Armand flytur okkur sinn fjórða og síðasta pistil í apríl. Að þessu sinni heldur hann aftur til Forngrikklands og Persaveldis og veltir fyrir sér því þegar misræmi skapast milli siðferðis og lagabókstafar.
Bragðarefur er nafn á ísrétti sem er búin til úr ís úr ísvél sem þeyttur er saman við nammi, sósur og ávexti að eigin vali. Nýleg verðhækkun á litlum bragðaref vakti athygli okkar í Lestinni. Lóa setti á sig neytendablaðamannahattinn, fór í Skeifuna og gerði óformlega könnun á verðvitund fólks. Það er ljóst að bragðarefsvísitalan hefur hækkað!
Í gær fjallaði Lestin um víkingamyndina The Northman og það lof sem hún hefur fengið fyrir að vera sagnfræðilega rétt og setja áhorfendur inn í hugarheim miðaldanna. Við hringjum til Noregs og ræðum við Jóhönnu Katrínu Friðriksdóttur sem var sagnfræðilegur ráðgjafi leikstjórans og handritshöfundanna við gerð myndarinnar.