Jón Óttar Ólafsson, afbrotafræðingur og fyrrum lögreglumaður, er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Hér fer hann ítarlega yfir starfshætti sérstaks saksóknara í kjölfar bankahrunsins en hann segir að rannsóknir í svonefndum hrunmálum hafi að hans mati ítrekað farið út fyrir lögbundnar heimildir og grundvallarreglur réttarríkisins.Hann var á árinu 2012, ásamt Guðmundi Hauki Gunnarssyni, kærður fyrir meint brot á þagnarskyldu er hann starfaði sem lögreglumaður hjá sérstökum saksóknara. Var þeim félögum gefið að sök að hafa lekið upplýsingum úr lögreglustörfum sínum til þrotabús Milestone. Málið var síðar fellt niður og skýringar gefnar út í fjölmiðlum um að Ríkissaksóknari teldi málið ekki líklegt til sakfellis.Jón Óttar hefur alltaf haldið því fram að hann hafi í yfirheyrslum vegna þessa máls árið 2012 upplýst ríkissaksóknara, að það sem þeir Guðmundur voru sakaðir um, hefðu verið viðtekin vinnubrögð hjá embætti sérstaks saksóknara.Hann segir að þeir hafi lýst fyrir Sigríði Friðjónsdóttur, Ríkissaksóknara, ferlum og atburðarrásum sem sýndu fram á að sérstakur hafi í mörgum tilfellum átt í ólögmætu samstarfi við bæði einkaaðila, sem og aðra opinbera aðila. Þessar frásagnir hafi hins vegar ekki ratað í skýrslur úr þessum yfirheyrslum og segir Jón Óttar það sýna að Sigríður hafi ákveðið að vísa málinu frá til að það myndi ekki valda embætti sérstaks saksóknara frekari vandræðum. Í þættinum eru spilaðar upptökur úr þessum yfirheyrslum sem varpa ljósi á málið.
Fáðu þér áskrift og sjáðu alla þætti á Brotkast í fullri lengd inni á https://brotkast.is/askrift/