Á laugardag fögnuðu áhugamenn um hljóðgervilinn, synthesizerinn, alþjóðlegum degi hljóðfærisins. Dagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim á fæðingardegi Roberts Moog sem fann upp fyrsta hljóðgervilinn. Hér á landi var deginum fagnað með hljóðgervlamessu í borgarbókasafni Reykjavíkur. Lestin kíkti við, prófaði græjurnar og ræddi við syntha-áhugafólk.
Kvikmyndahátíðin Stockfish fer fram þessa dagana í Bíó Paradís. Í þættinum í dag rýnir Ásgeir Ingólfsson í nýja íslenska heimildarmynd Apausalypse sem er frumsýnd á hátíðinni og segir frá myndum í stuttmyndahluta hátíðarinnar, Sprettfisknum svokallaða, sem fór fram um helgina.
Indípoppsveitin BSÍ gaf út sína fyrstu breiðskífu á dögunum, plata sem skiptist í tvennt eftir takti og viðfangsefnum, Fyrri parturinn nefnist Stundum þunglynd... og sá síðari En Alltaf andfasískt. Við ræðum við tvíeykið BSÍ um pólitíska texta og hvað það þýðir að spila pönk.