Við minnumst hins sérstæða og einræna tónlistarmanns Daniels Johnston sem lést í gær 58 ára að aldri. Við ræðum við Ágúst Garðarson sem er mikill aðdáandi Johnston og skipulagði meðal annars tónleika hans í Fríkirkjunni árið 2013
Einu sinni í mánuði, í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu, er partý. Það er reyndar ekkert Framsóknarpartý og hreint ekkert venjulegt partý ef út í það er farið. Það er hinsegin partý. Bara fyrir kynsegin fólk og konur sem elska konur.
Lestin leit við á Hinsegin Ladies Night í gærkvöldi.
Við heyrum fyrsta hlutann í fjögurra pistla röð Ásgeirs Ingólfssonar þar sem hann skoðar mannkynssögu síðustu 250 ára út frá því hvernig hún birtist í nokkrum vel völdum myndasögum frá ýmsum heimshornum. Í þessum fyrsta þætti ferðumst við til Ástralíu, Alsír og í samfélag kínverskættaðra Bandaríkjamanna.
Suður-Kóreska raftónlistarkonan, plötusnældan, fatahönnuðurinn og instagram-áhrifavaldurinn Peggy Gou hefur farið sigurför um dansgólf heimsins síðustu misseri og breytt yfir þau stjörnubjarta nótt - en lag hennar Starry Night er eitt af lögum ársins hingað til. Davíð Roach Gunnarsson skautar yfir feril Peggy Gou hér á eftir en hún er búsett í Berlín og hefur á þremur árum tekist að koma sér í raðir eftirsóttustu plötusnúða í heiminum.