Já, ég hef hætt ýmsu í gegnum tíðina. Hætt í samböndum, hætt að borða kjöt, hætt á pillunni og nú er ég að hætta í Lestinni. Ég hef svona eiginlega verið að reyna að hætta í Lestinni í mjög langan tíma, næstum því nákvæmlega tvö ár. Ekki svo að skilja að ég hafi viljað flýja Rás 1 nei, ég var að reyna að búa til barn. En það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.
Davíð Roach Gunnarsson fjallar um Shamir, svartan, hýran og kynsegin tónlistarmann sem sendi nýlega frá sér sína áttundu breiðskífu á jafn mörgum árum, plötuna Heterosexuality eða gagnkynhneigð.
Jaðarfréttaritari Lestarinnar, Þórður Ingi Jónsson, fjallar um villt svall-partý í L.A., nánar tiltekið tónverkið Veisla eða Feast sem var frumflutt í Disney tónleikahöllinni í síðustu viku. Þórður smyglaði sér baksviðs og spjallaði við tónskáldið Daníel Bjarnason og Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara um þetta nýjan píanókonsert Daníels.