Við förum niður í Tjarnarbíó og kynnum okkur Neind Thing - dansverk eftir Ingu Huld Hákonardóttur, framið af 3 sviðslistakonum og einum trommara og leitast við að umbreyta ástandi óreiðu og ömurleika í rými til að tengjast, dreyma, íhuga, dansa og leika. Leikurinn er: Neitið og þér munið finna.
Í hverju felst fyrirbærið ást? Kristín Anna Hermannsdóttir er ekki viss, en veit það fyrir víst að ástin hlýtur að fela í sér einhvers konar grín. Í dag ræðir hún um ljóð eftir brasilíska ljóðskáldið Oswald de Andrade, sem er í einfaldari kantinum. Það heitir Amor, og inniheldur bara eitt orð, humor.
Við dýfum svo tánni ofan í crypto-samfélagið og kynnum okkur fyrirbærið DAO, nýtt fyrirbæri sem nýtur aukinna vinsælda í sniðmengi framúrstefnulistafólks, tölvunörda og áhættufjárfesta.