Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur skorað á streymisveituna Disney plús að gera teiknimyndir sínar aðgengilegar á íslensku en lmenn samstaða virðist meðal almennings, stjórnmálamana og fræðafólks um mikilvægi þess að börn geti horft á þetta sívinsæla efni á okkar ástkæra ylhýra. Enn hafa engin svör borist frá Disney en við grípum tækifærið og fáum Ólaf Hauk Símonarson, þýðanda gullaldar disneymyndarinnar Konungur ljónanna, í heimsókn.
Bandaríski pródúserinn, plötusnúðurinn, hljóðfæraleikarinn og rapparinn Madlib hefur undanfarna tvo áratugi verið í fremstu röð utangarðslistamanna sem láta reyna á þanþol hipphoppsins. Hann hefur þó aldrei gefið út sólóskífu undir sínu aðallistamannsnafni fyrr en nú, en breiðskífan Sound Ancestors sem var sett saman af breska raftónlistarmanninum Four Tet kom út nú fyrir helgi. Davíð Roach Gunnarsson rýnir í feril taktútsetjarans Madlib og hans nýjustu skífu hér á eftir.
Í gær heimsóttum við listamannatvíeykið Krot og Krass, en þau vinna nú að því koma á fót skapandi gámarými í gamalli áburðarskemmu í Gufunesinu. Þetta verksmiðjuhverfi er óðum að umbreytast í þorp skapandi greina, með kvikmyndaverum og vinnustofum listafólks. Í kjölfarið fór Kristján að velta fyrir sér hvernig listamenn hafa nýtt sér mannvirki gamalla atvinnuhátta hingað til og hvernig þær gætu gert það í framtíðinni.