Í gær komst niðurstaða í dómsmál fyrrum hjónanna Johnny Depp og Amber Heard. Málið var höfðað af leikaranum Johnny Depp gegn Amber Heard fyrir ærumeiðingar, en Heard skrifaði um að hafa orðið fyrir heimilisofbeldi árið 2018. Í gær féll dómur Depp í hag. Réttarhöldunum var streymt á netinu og hlutu þau mikið áhorf, og netverjar hafa verið duglegir að láta í ljós skoðanir sínar á því sem fer þar fram. Melkorka Gunborg Briansdóttir fjallar um dómsmálið, sem hún kallar skrípaleik.
Hljómsveitir sem tilheyra allar listakollektívinu post dreifing eru á leið til Noregs og munu koma til með að spila bæði í Osló og Bergen. Ástæða ferðalagsins er vinasamband sem hefur myndast á milli tveggja indie-sena, hér í Reykjavík og í Bergen. Snæbjörn Helgi Arnarsson Jack segir okkur frá fyrirhugaðri Noregsreisu.
Reykvíska rokkhljómsveitin Graveslime starfaði í stuttan tíma í upphafi árþúsundarins. Áður en fyrsta plata hennar, Roughness and Toughness, kom út árið 2003 hafði aðalsöngvarinn misst heyrnina og hljómsveitin splundrast á dramatískan hátt. Platan, sem hefur öðlast költstöðu í íslensku þungarokki, hefur verið illfáanleg undanfarin 19 ár, en er nú komin á streymisveitur í allri sinni dýrð. Við ræðum við Kolbein Huga og Aðalstein Möller úr Graveslime.