Bálfarir hafa aukist undanfarin ár og áratugi og eru orðnar meira en helmingur af öllum útförum á Reykjavíkursvæðinu, og gera má ráð fyrir að aukningin eigi eftir að verða meiri á næstu áratugum. Á hönnunarmars sýnir íslenska fyrirtækið Aska Bio Urns nýja hönnun sína, á vistvænum niðurbrjótanlegum duftkerum úr endurunnum pappa. Við kíkjum í Epal og ræðum við stofnanda fyrirtækisins.
Getur það verið unaðslegt að bjarga náttúrunni? Hvað ef við hugsuðum um jörðina sem elskhuga fremur en móður? Þær Antónía Bergþórsdóttir og Elín Margot hafa undanfarið ár verið að vinna að því að búa til unaðstæki úr íslenskum hráefnum. Í dag á fyrsta degi Hönnunarmars bjóða þær gesti velkomna inn í ferlið að skoða frumgerðir slíkra tækja og pæla með þeim hvernig slík unaðstæki gætu litið út. Verkefnið heitir Fró(u)n og er hluti af Hönnunarmars í ár -
Við fáum vikulegan pistil frá Hauki Má Helgassyni rithöfundi, sem er þessa dagana, eins og svo margir með hugann við gervigreind. Í dag heyrum við um slóttugar vélar og sálfræðinginn og tölvunarfræðinginn Geoffry Hinton sem sagði starfi sínu lausu frá Google til þess að geta varað við þróun gervigreindar án þess að skaða fyrirtækið.