Síðar í vikunni sendir tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm frá sér sína áttundu breiðskífu, Kast spark fast. Undanfarin ár hefur Benni gefið út lágstemmt svefnherbergispoppið sem hefur ekki alltaf ratað í útvarp eða á tónleika. En nú snýr hann aftur endurnærður með hljómsveit skipaðri stórskotaliði íslenskra indítónlistarmanna. Benni Hemm Hemm heimsækir Lestina í dag.
Halldór Armand Ásgeirsson flytur pistil að venju á þriðjudegi. Í þetta sinn er hann að hugsa um hversu óafsakanlega dýrt er að búa á Íslandi og einhvern veginn kemur Ódysseifur við sögu.
Á síðustu misserum hafa hlaðvörp rutt sér til rúms í hinni íslensku fjölmiðlaflóru. Þau fjalla um allt milli himins og jarðar, frá morðum yfir í meðgöngu og koma í ýmsum formum - geta verið spjallþættir, einræður eða jafnvel leikin. Næstu vikur hyggst Lestin kynna sér þessa nýju ólínulegu dagskrárflóru landsins, eitt hlaðvarp í einu. Við byrjum á hlaðvarpi Granda 101.