Manneskjan býr yfir þeim eiginleika að geta ímyndað og séð fyrir sér allt það sem mögulega gæti gerst í framtíðinni, hún getur skapað mögulegar framtíðir. Á undanförnum árum hafa slíkar framtíðarpælingar verið áberandi í skáldskap og poppmenningu. Oftar en ekki er það svartsýnin sem ræður för og sá framtíðarheimur sem við sjáum fyrir okkur er ógnvekjandi og hryllilegur. Slík dystópísk framtíðarsýn einkennir meðal annars tvær nýjar seríur sjónvarpsþáttanna Black Mirror og Handmaid's Tale sem komu út í byrjun júní. Í Lestinni í dag veltum við því fyrir okkur af hverju við erum sérstaklega móttækileg fyrir dystópíum í dag með Eyju Margréti Brynjarsdóttur, heimspekingi.
Í kvöld mætast FH og Dusty í úrslitum Lenovo deildarinnar í tölvuleiknum League of Legends. Lið FH er raunar eiginlega nýtt af nálinni en það hét áður Frozty og var sjálfstætt starfandi. Ákvörðun FH að taka svokallaðar rafíþróttir upp á arma sína er umdeild enda er hreinlega umdeilt hvort tölvuleikir geti eða eigi að taljast sem íþróttir yfirhöfuð. Hallsteinn Arnarsson verkefnastjóri hjá FH eSports segir nálgun félagsins á fyrirbærið þó eiga augljósa rót í íþróttum. Rætt verður við Hallstein og Counterstrike leikmanninn Gísla Geir Gíslason í Lestinni í dag.
Í pistli sínum í dag fjallar Karl Ólafur Hallbjörnsson um minnið og lægstu mörk vitundarinnar.