Tik Tok power ballaðan Driver?s Licence - Ökuskírteinið - svífur í hæstu hæðum streymisveitna og vinsældalista um þessar mundir. Sú var tíðin að slík tónlist átti fast sæti á slíkum listum en gullöld kraftvæmninnar virðist þó löngu liðin, eða hvað? Við kynnum okkur magnþrungna tregasöngva, meðal annars með hjálp kraft söngkonunnar Heru Bjarkar Þórhallsdóttur.
Julius Pollux heldur áfram að rannsaka hljóðmyndir heimsins. Að þessu sinni veltir hann fyrir sér þögn í vélvæddum mannheimi, og segir meðal annars frá hljóðvistfræðingnum Gordon Hempton sem berst fyrir því að halda í svæði á jörðinni þar sem manngerðum hljóðum er haldið í burtu.
Og við heimsækjum hönnunarteymið Þykjó sem hafa verið titlaðir staðarlistamenn kópavogs í ár. Hópurinn sérhæfir sig í búningum, innsetningum og listasmiðjum fyrir börn, vilja örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í gegnum opinn leik. Núna er Þykjó að undirbúa innsetninguna Skríðum í skel sem er víst innblásin af skjaldbökum, sniglum, kuðungum og fleiri skeldýrum.