Bresku sjónvarpsþættirnir I May Destroy You hafa vakið mikla athygli að undanförnu. Þættina byggir handritshöfundurinn, leikstjórinn og aðalleikkonan Micheala Coel á eigin reynslu af kynferðisofbeldi. Við ræðum þessa marglaga og áhrifaríku sjónvarpsþætti við Salvöru Gullbrá Þórarinsdóttur, sviðshöfund og uppistandara. Í pistli sínum í dag veltir Halldór Armand Ásgeirsson fyrir sér hvort sóttvarnarráðstafanir vegna heimsfaraldursins muni hafa áhrif á frelsi fólks til frambúðar. Hann skoðar gagnrýni ítalska heimspekingsins Giorgio Agamben á viðbrögð samfélaga heimsins við veirunni. Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við háskóla íslands og formaður hins íslenska ástarrannsóknafélags, mun flytja pistla um ástina í samtímanum í Lestinni næstu vikur. Í sínum fyrsta pistli fjallar Berglind um það hvernig val, þetta lykilhugtak kapítalismans, hefur nú þróast yfir í þá tilhneigingu fólks að velja aldrei fyllilega neitt. Hún skoðar hvernig þetta einskisval birtist á sviði ástarinnar. Í september voru 60 ár frá því að fyrst var sjónvarpað frá kappræðum frambjóðenda til embættis forseta Bandaríkjanna. Sjónvarpskappræðurnar hafa síðan þá verið einhver mikilvægasti þátturinn í kosningabaráttunni, besti vettvangurinn fyrir stjórnmálamenn til að sýna kjörþokka sinn. En nú með nýjum miðlunarleiðum virðist þetta vera að breytast - og núverandi bandaríkjaforseti neitar að takast á við mótframbjóðanda sinn í kappræðum sem áttu að fara fram í gegnum fjarfundabúnað. Við ræðum stjórnmál og sjónvarpskappræður við Andrés Jónsson, almannatengil.