Það hefur ekki heyrst mikið í Emilíönu Torrini að undanförnu. Emilíana hefur verið ein allra vinsælasta tónlistarkona landsins undanfarna áratugi en ekki síður gert það gott erlendis, meðal annars sem lagasmiður fyrir heimsþekkta tónlistarmenn á borð við Kylie Minogue Það eru liðin fjögur ár frá síðustu plötu Emilíönu sem hann vann með The Colorist Orchestra og heil sjö ár frá því að plata með nýrri tónlist frá henni kom út - en það var Tookah sem kom út árið 2013. Rödd hennar fékk hins vegar að hljóma í Hörpu um helgina þegar hún söng með Sinfóníuhljómsveit Íslands á Klassíkinni okkar. Að þessu tilefni tekur Emilíana sér far með Lestinni. Við heyrum líka um umtöluðustu myndina í bíóhúsunum þessa dagana, Tenet eftir Christopher Nolan. Það bíða alltaf margir uppfullir eftirvæntingar eftir myndum Nolans sem hefur skapað sér mikla sérstöðu í meginstraumsbíóinu með framsæknum og hugvíkkandi hasarmyndum. En hann er vissulega umdeildur, það eru alls ekki allir sammála um kosti kvikmynda hans. Eru þær djúpþenkjandi eða algjörlega innihaldslausar? Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar rýnir í Tenet. Þetta er fyrsti hlaðvarpsþáttur Lestarinnar þennan veturinn og í tveimur innslögum í dag veltum við fyrir okkur þessari athöfn: að byrja. Við fylgjum eftir nýnema, á nýnemakynningu við Verzlunarskóla Íslands og kynnumst því hvernig er að byrja í menntaskóla á tímum þar sem allt félagslíf er óvissu háð. Við skoðum líka hvernig á að byrja útvarpsþátt, leikum upphafsstef hinna ýmsu þátta Rásar 1, og veltum fyrir okkur þýðingu þeirra og eðli. Við spyrjum líka hvort Lestin eigi mögulega að finna sér nýtt forspil.