Stéttavitund var nokkuð til umræðu í síðustu viku í samhengi við umdeilda auglýsingaherferð Landsbankans „Ungt fólk og peningar“ - þar sem ungu fólki voru gefin ýmis konar sparnaðarráð. Þeir sem voru í forgrunni í herferðinni voru margir hverjir úr efstu lögum samfélagsins, börn forstjóra, stjórnenda úr fjármálageiranum og áhrifamanna úr þjóðfélaginu. Einn montaði sig á samfélagsmiðlum af því að hafa haft fjögurra milljón króna armbandsúr á hendinni í auglýsingunni. Við ræðum um stéttir og stéttavitund við Guðmund Ævar Oddsson, dósent við Háskólann á Akureyri, í Lestinni í dag.
Björn Bragi Arnarsson dró sig i hlé úr sviðsljósinu á síðasta ári eftir að myndband af honum að káfa á unglingsstúlku fór í dreifingu á netinu. Nú, er hann snúinn aftur. Lestin lítur á hvernig grínistinn vinnur úr reynslu sinni í sýningu hvers titill og innihald vísar sterklega í umrætt hneykslismál.
Vinnur þú við að stjórna fólki sem stjórnar sér samt að mestu sjálft? Vinnuru við að finna upp ónauðsynleg verkefni? Eyðiru kannski mestum vinnutímanum þínum á samfélagsmiðlum og fréttaveitum? Í pistli sínum í dag skoðar Tómas Ævar Ólafsson kjaftæði á vinnustað og styðst við nýlega kenningu bandaríska mannfræðingsins David Graeber um störf sem eru í eðli sínu tilgangslaus.
Og við rifjum upp viðtal við Hildi Guðnadóttur sem í nótt vann Emmy verðlaun fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl.