Í Lestinni í dag hringjum við til Berlínar og heyrum í Maríu Guðjohnsen, þrívíddarhönnuði, sem býr og starfar þar í borg. Meðal umræðuefna verða þrívíðir fantasíuheimar, viðaukinn veruleiki, og staða kvenna í tæknigeiranum. Katrín Guðmundsdóttir rýnir í grínþættina Eurogarðurinn sem eru sýndir á Stöð 2. Einvalalið grínista leikur í þáttunum sem fjallar um starfsfólk í ný-einkavæddum fjölskyldu og húsdýragarði. Fyrir átta árum komst Andri Hrafn Agnarsson að því að hann væri ófrjór. Áfallið var mikið og hafði ófyrirsjáanleg áhrif á líf hans en núna, öllum þessum tíma síðar. fann hann þörf hjá sér til að tala um það - ekki bara við fjölskyldu sína eða trúnaðarvini heldur alla sem vilja heyra eða gætu þurft á því að halda. Hann ákvað að búa til hlaðvarp Halldór Armand flytur okkur pistil um fegurðina við það að vera byrjandi. Hann segir okkur lygilega sögu, tengda bókinni Musicals for Dummies, söngleikjum fyrir hálfvita.