Heimsendir er okkur hugleikinn í dag og við sökkvum okkur ofan í gullkistu Ríkisútvarpsins, þar sem ýmislegt fróðlegt mátti finna um dómsdag. Við veltum fyrir okkur hugmyndum fortíðar um heimsendi en einnig nútíðar.
Hugmyndir um heimsslit hafa fylgt okkur frá örófi alda. Í textum allt aftur í fornöld er að finna sögur um það hver endalok þessa heims eða tilvistar okkar manna gæti orðið. En hvað er átt við með heimsendi? Endalokalýsingar í hinum ýmsu textum, bókmenntum og trúarritum, eru fjölbreyttar og misróttækar. Þær spanna allt frá tortímingu alls lífs á jörðinni, yfir í eyðingu þeirrar veraldar sem við þekkjum og lýsing á gjörbreyttum heimi.
Við heyrum brot úr þættinum Í dag frá árinu 1971 þar sem Jökull Jakobsson spyr fólk á förnum vegi hvernig það myndi verja sínum síðasta degi ef dómsdagur kæmi á morgun. Í þeim efnum hefur lítið breyst og við berum það saman við svör fólks við sömu spurningu í Kringlunni árið 2023.
Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki velti heimsendi fyrir sér í nokkrum pistlum í Víðsjá árið 2020. Það er nokkuð ljóst að einhvers konar heimsendir hangir yfir okkur. Ógnin er í það minnsta mikil og hvað gerum við þá? Gæti verið að í heimsendi felist ekki bara takmarkalaus eyðilegging heldur líka tækifæri til að skapa heiminn á ný?