Í gær hófum við nýja örseríu í Lestinni um innflytjendastefnu Íslands í aðdraganda seinna stríðs. Þá fjölluðum við um umsóknirnar að utan, um fólkið sem vildi koma, gyðingana sem íslensk stjórnvöld neituðu um landvistarleyfi. Í dag fjöllum við um fólkið sem vildi hjálpa, Íslendinga sem reyndu að bjarga flóttafólki frá ofsóknum og dauða, fólk eins og Katrínu Thoroddsen.
Lokaþáttur þriðju seríu Succession var frumsýndur á sunnudagskvöld í Bandaríkjunum og í gær á Stöð 2. Þættirnir njóta stöðugt meiri vinsælda og einhverjir vilja meina að þeir séu með þeim bestu sem gerðir hafa verið undanfarin ár. Í aðdraganda lokaþáttarins hófst upp mikil umræða um leikarann Jeremy Strong sem fer með eitt aðalhlutverkið og aðferðafræði hans í leiknum. Við ræðum við Ingvar E Sigurðsson sem lék á móti Strong í annarri seríu Succession.
Lóa Björk Björnsdóttir heldur áfram að velta fyrir sér karlmennsku og jólunum. Að þessu sinni ræðir hún við afa sinn, Val Ben.
Og við heyrum tvær jólasögur frá meistaranemum í ritlist við háskóla íslands. Þetta eru örsögur, hver þeirra 91 orð og allar eru þær unnar út frá sama þemanu: Grautur.