Þetta er seinasti þáttur Lestarinnar fyrir sumarfrí og, við erum svolítið þreytt. Ekki á ykkur, elsku hlustendur, bara á því að sitja við skrifborðið og á öllu þessu erfiða sem er í fréttum og við reynum að fjalla um og okkur finnst við eiga að fjalla um og trúum því ekki að við þurfum ennþá að fjalla um... svo í dag tölum við við Nönnu Hlín Halldórsdóttur, doktor í heimspeki og nýbakaða móður sem rannsakar þreytu, bæði í vinnunni og einkalífinu, sem nýbökuð móðir.
Mikil hátíðarhöld hafa farið fram í alþýðulýðveldinu Kína í dag, því er fagnað að fyrir nákvæmlega öld var kommúnistaflokkur landsins stofnaður í Sjanghæ. Á hundrað árum hefur fámennur hópur róttæklinga orðið að einhverjum valdamesta afli á jörðinni. Við kynnum okkur kínverska kommúnistaflokkinn og heyrum um viðhorf kínverja til hans.
Ingólfur Eiríksson flytur okkur sitt sjötta bréf til Birnu. Meðal þess sem ber á góma eru starfsumsóknir, samkennd og evrópumeistaramót í fótbolta - en eins og álfan sat Ingólfur í losti ásamt föður sínum fyrir framan sjónvarpið þegar danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen hneig niður.