Spænski rapparinn Pablo Havél var handtekinn og honum hent í steininn þar sem hann þarf að dúsa næstu mánuði ? ekki fyrir byssueign, ofbeldi eða eiturlyfjasölu - heldur fyrir að móðga konungsfjölskylduna og hvetja til hryðjuverka, eins og það er kallað. Mótmæli geysa um allan spán til stuðnings rapparanum og Amnesty International hafa fordæmt dóminn. Við ræðum Pablo Havél við afa íslenska rappsins, Sesar A.
Norður-írski raftónlistardúettinn Bicep gaf út sína aðra plötu á dögunum en þeir slógu í gegn með sinni fyrstu skífu, og þá sérstaklega laginu Glue, fyrir þremur árum síðan. Davíð Roach Gunnarsson rýnir í plötuna Isles með Bicep og hvaða þýðingu það hefur að skapa danstónlist í heimi þar sem er bannað að dansa
Og svo er það Britney, tík. Með Free Britney hreyfingunni hefur staða stórstjörnunnar - sem svipt var sjálfræði og fjárráði ung að aldri - komist í hámæli en nú hefur New York Times í samstarfi við streymisveituna Hulu gefið út heimildarmynd sem varpar ljósi vegferð hennar og það hvernig samfélagið braut Britney niður.
Gréta Þorkellsdóttir hönnuður, tók einmitt þetta efni fyrir í lokaverkefni sínu frá LHÍ og er nú þegar búin að horfa á myndina tvisvar.