Hlutfall reiðufjár í umferð hér á landi er með því lægsta sem þekkist. Um árabil hafa Íslendingar skilið klinkið eftir í bauknum og straujað greiðslukortið þess í stað en nú er kortið að úreltast. Því hver þarf kort ef hann hefur síma? Frá því í maí mánuði hafa iPhone notendur á Íslandi getað nýtt sér greiðsluþjónustu Apple Pay og skilið veskið eftir heima. En - það er annað kort sem býr í veskinu og vill stundum gleymast: ökuskírteinið. Getur það kannski orðið rafrænt líka? Munum við einn daginn sækja ökuskírteinis-appið?
Við kveikjum einu kerti á og ornum okkur við jólaljósin en sumum verður starsýnt á skugganna sem þau varpa. Tómas Ævar Ólafsson er einn þeirra. Hann hefur í dag þriggja pistla röð um þá tilgátu sína að jólin séu í raun hátíð dauðans.
Árið 2016 lést Genvieve Castrée eiginkona og barnsmóðir bandaríska tónlistarmannsins Phil Elvirum, sem notar listamannsnafnið Mount Eerie. Á þremur plötum listamannsins eftir andlátið hefur hann gefið hlustendum hispurslausa innsýn í sorgarferlið, átakanlega og berskjaldaða. Við skoðum nýjustu plötu Mount Eerie í Lestinni í dag.
Við kynnum okkur hvaða tuttugu og fimm plötur eru tilnefndar til Kraumsverðlaunanna í ár, en þau eru veitt árlega íslenskum plötum sem þykja hafa borið af á árinu hvað varðar gæði, metnað og frumleika