Flest fólk er hætt að greina á milli gervigreindarsmíðaðrar og manngerðrar tónlistar. Gervigreindarlög klýfa stöðugt hærra upp vinsældalista og gervilistamenn fá samninga við stór plötufyrirtæki. Við skoðum nokkur af þeim gervigreindarlögum sem hafa náð hátt á vinsældalista í Evrópu og Ameríku undanfarið.
Við rýnum í gamantryllinn The Chair Company frá HBO. Það er grínistinn Tim Robinson sem skrifar þættina og leikur aðalhlutverkið, mann sem fer í örvæntingarfulla leit að aðstandendum dularfulls stólafyrirtækis sem ber ábyrgð á vandræðalegu stólaslysi sem hann lenti í. Brynja Hjálmsdóttir segir frá.
Að lokum hittum við myndlistarkonuna Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur á Gerðarsafni, hún er í hópi listamanna sem taka þátt í sýningunni Skúlptúr skúlptúr performans. Hennar verk á sýningunni eru ljósmyndir af afa hennar Boga, sem hún andlitsmálaði, í anda þeirrar andlitsmálningar sem er í boði fyrir börn á 17. júní.