Við förum í ferðalag með Önnu Gyðu Sigurgísladóttur sem er um þessar mundir með hugann við mergð sagna og sjónarhorna sem sveima í kringum okkur allan liðlangan daginn. Hún fer á stúfana og spyr gesti og gangandi: Hvað ertu að hugsa einmitt núna? Í dag lítur hún inn á nytjamarkað í Austurveri og ræðir við forstöðumanninn þar, Karl Jónas Gíslason.
Á dögunum fundust um 4000 blaðsíður af glósum nemanda við Heidelberg háskóla frá árunum 1816-1818. Nemi þessi sat fyrirlestra þýska heimspekingsins G. W. F. Hegel sem eru taldir vera með þeim fyrstu sem hann hélt. Hegel er einn nafntogaðasti heimspekingur evrópskrar hugmyndasögu, sennilega sá áhrifamesti og oft sagður sá torskildasti líka. Við ræðum við Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, um þessar ný-uppgötvuðu glósur og hvað þær gætu þýtt fyrir skilning okkar á Hegel.