Golden Globes - sjónvarps og kvikmyndaverðlaun samtaka erlendra blaðamanna í Hollywood, Hollywood Foreign Press - fóru fram í áttugasta skipti í gær. Í Beverly Hills á Beverly Hilton hótelinu. Nokkrar þakkarræður vöktu mikla athygli og við rýnum í þær.
Eyrún Lóa Eiríksdóttir rýnir í sjónvarpsþættina Kaleidoscope sem sýndir eru á Netflix.
Við hugum líka að hinu karnívalíska. Það fór eflaust ekki framhjá neinum að þrettándahátíð í Vestmannaeyjum síðastliðinn föstudag rataði í
sviðsljósið fyrir umdeild tröllalíkneski sem þar gengu um. Hátíðarhöld tengd þrettándanum eiga sér langa og ríka hefð í Eyjum og lengi hefur það þekkst að skapa ófrýnilegar verur sem tákna þjóðþekktar persónur sem tengjast tíðarandanum, fólk sem gert er stólpagrín að. Við fengum til okkar þjóðfræðing sem segir okkur hvernig þessi hátíð tengist öðrum svokölluðum búninga- og heimsóknarhátíðum og hvernig karnívalið getur hjálpað okkur að setja atburðina í Vestmannaeyjum í skýrara samhengi.