Í fyrradag greindi fotbolti.net frá því að íþróttafréttamönnum sem fylgja landsliðinu eftir í Tyrklandi hefði verið bannað að að spyrja Kolbein Sigþórsson ákveðinna spurninga. Það er oft talað um fréttamenn sem fjórða valdið, en er þessi þörf á aðhaldi líka til staðar þegar kemur að íþróttafréttum? Í Lestinni í dag veltum við fyrir okkur fjölmiðlafrelsi á vettvangi íþróttanna.
Harkhagkerfið hefur það verið kallað hið nýja samband atvinnurekanda og starfsmanns þar sem verkafólkið ræður sig ekki beint í vinnu heldur gerist það sjálfstæðir undirverktakar á vegum fyrirtækja á borð við Uber, Deliveroo eða Amazon og fær verkefni, gigg, í gegnum stafrænan vettvang. Þessi nýja tegund vinnu er viðfangsefni kvikmyndarinnar Sorry we missed you, nýjustu kvikmyndar eins helsta meistara breska sósíalrealismans, Ken Loach. Við rýnum í kvikmyndina og orðaforða harkhagkerfisins.
Við höldum áfram að skoða fyrirbærið innblástur hér í Lestinni á miðvikudögum. Að þessu sinni ræðir Anna Gyða Sigurgísladóttir við Xinyu Zhang, bókmenntafræðinema um Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur.