Í næstu vikur verður frumsýnd fyrsta kvikmyndin í fullri lengd eftir tvo rétt rúmlega tvítuga kvikmyndagerðarmenn. Dramatíska spennumyndin Harmur eftir þá Anton Karl Kristenssen og Ásgeir Sigurðsson er gerð fyrir lítinn pening en af mikilli ástríðu og útsjónarsemi.
Og talandi um unga kvikmyndagerðarmenn. Við heyrum um breytt fyrirkomulag á stuttmyndakeppninni Sprettfisk sem er árlegur viðburður, hluti af kvikmyndahátíðinni Stockfish. Nú fer keppnin fram í fleiri flokkum en áður og verðlaunin veglegri. Marzibil Sæmundardóttir framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir frá.
Heimildaþættirnir Get Back um frægustu hljómsveit 20. aldarinnar, Bítlana, vöktu mikla athygli og umtal þegar þeir komu út undir lok síðasta árs. Og síðan þá hefur fólk rökrætt hvort Paul sé óþolandi stjórnsamur, hvort stöðug nærvera Yoko sé þrúgandi, og af hverju George hætti tímabundið í bandinu. Gunnar Ragnarsson kvikmyndagagnrýnandi hefur hins vegar tekið þessa þætti í smáskömmtum, míkródósað bítlana undanfarnar vikur, og hann lýsir áhrifunum í Lest dagsins.