Hvernig hljómar framtíðin á Íslandi? Hvernig hljómar hnattræn hlýnun og yfirgefnar og sokknar borgir? Þetta eru þær spurningar sem Sveinbjörn Thorarensen, betur þekktur sem Hermigervill, veltir fyrir sér á nýtti plötu, The Future Sound of Iceland sem kom út í sumar. Hermigervill tekur sér far með Lestinni í dag.
Dauðinn er kósý en kraftmikill, lífið hráslagalegt og brothætt skrifar breski heimspekingurinn Timothy Morton í nýlegri bók sinni Being Ecological. Tómas Ævar Ólafsson skoðar bókina og pælir í kenningu Mortons um vist-veruna.
Framleiðslu samnefndrar þáttaraðar um táningsspæjarann Veronicu Mars var hætt árið 2007 en árið 2014 var gerð kvikmynd um kvenhetjuna. Sú hlaut heldur dræma dóma en aðdáendur þyrsti í meira og nú hefur fjórða serían litið dagsins ljós. Áslaug Torfadóttir rýnir í Veronicu fyrr og nú.
The Joker, Jókerinn, upprunasaga illmennisins síglottandi úr sagnaheimi Leðurblökumannsins, Batman, hlaut um helgina gullljónið, aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Þetta er í fyrsta skipti sem kvikmynd byggð á sagnaheimi ofurhetjanna hlýtur aðalverðlaun á A-lista kvikmyndahátíð - einni af virtustu kvikmyndahátíðum heims. Við heyrum fréttir frá Feneyjum.