Hótel Saga lokaði haustið 2020 og stendur húsið meira og minna tómt þessa dagana. Unglingadeild Hagaskóla hefur notað það undir kennslu, flóttamenn frá Úkraínu hafa dvalið þar en nýlega keyptu íslenska ríkið og félagsstofnun stúdenta húsið og mun það koma til með að hýsa Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hótel Saga er líka sögusvið, innblástur og útgangspunktur ritlistarnema við Háskóla Íslands, sem gáfu út á dögunum bókina Takk fyrir komuna. Bókin er gefin út af Unu útgáfuhúsi og er samstarf ritlistar-og ritstjórnarnema. Við ræddum við tvo ritlistarnema sem eiga sögur í bókinni, þær Berglindi Ernu Tryggvadóttur og Hildi Selmu Sigbertsdóttur.
Fróði Jónsson, dýraatferlisfræðingur, gerir hreiðurgerð órangútana skil í nýjasta pistli sínum í pistlaröð sinni um menningu innan dýrasamfélaga.
Hljómsveitin Kvikindi gaf út sína fyrstu breiðskífu núna á dögunum, Ungfrú Ísland. Þetta er 10 laga plata með hálf-rafrænni popptónlist sem ýmist stekkur beint í andlitið á manni eða kemur svolítið aftan að manni, ég er allavega búinn að vera með þónokkur af þessum lögum á heilanum undanfarna viku. Textarnir finnst mér mjög nútímalegir, gerast á tímum samfélagsmiðla, stöðugrar sjálfsbætingar, vellíðinariðnaðarins, og MeToo. Við förum í göngutúr með stofnmeðlimum hljómsveitarinnar Friðrik og Brynhildi, og þriggja mánaða dóttur Brynhildar í kerrunni.