Stöðugt fleiri stórviðburðum og samkomum er aflýst um þessar mundir eða skotið á frest vegna kórónuveirunnar og Covid-19. En þó það hafi kannski hægst eitthvað á hjólum menningarlífsins rúlla þau enn. Einn þeirra viðburða sem fer fram í skugga veirunnar er kvikmyndahátíðin Stockfish sem hefst á fimmtudag. Við heimsækjum Tjarnarbíó þar sem undirbúningur er nú í fullum gangi og ræðum við Marzibil Sæmundardóttur framkvæmdastjóra hátíðarinnar.
Bjarki Þór Jónsson flytur annan pistil af fjórum um tölvuleiki, að þessu sinni segir hann frá svokölluðum hugvekjuleikjum, en það eru tölvuleikir sem taka fyrir flókin efni og fá spilarann til að staldra við og hugsa.
Og við heyrum í tónskáldinu Herdísi Stefánsdóttir. Síðustu vikur hefur hún unnið hörðum höndum að tónlist við nýja þætti HBO sjónvarpsstöðvarinnar um dragsýningar í bandarískum smábæjum.