Undir lok nítjándu aldar vöknuðu miklar áhyggjur um flutning íslenskra kvenna frá sveitum til kaupstaða. Var þessi „kaupstaðasótt“ talin einkennast af kynferðislegu lauslæti og jafnvel vændi með erlendum mönnum. Þetta var talið ýta undir kynsjúkdómasmit og þar með ógna heilbrigði þjóðarinnar. Orðræða um kynheilbrigði og kynsjókdóma í kringum síðustu aldamót er umfjöllunarefni nýrrar greinar Þorsteins Vilhjálmssonar, fornfræðings, í Sögu, tímarits sögufélagsins. Þorsteinn tekur sér far með Lestinni í dag.
Laufey Haraldsdóttir, leikkona og uppistandari, heldur áfram að skoða grínmenningu internetsins og menningarfyrirbærið meme (lesist: mím). Í síðasta pistli sínum af fjórum fjallar hún um íslensk meme.
New Yok-rapparinn JPEGMAFIA hefur vakið athygli að undanförnu fyrir framsæknar taktsmíðar og sérstakar rímur sínar. Davíð Roach Gunnarsson fjallar um rapparann og nýja plötu hans All my heroes are cornballs.
Í dag hélt Samtónn, samtök rétthafa íslenskrar tónlistar, dag íslenskrar tónlistar hátíðlegan. Aðeins hefur verið tekist á um lagaval Samtóns í tilefni dagsins en svo virðist sem tónmenntakennurum þyki textar þeirra óviðeigandi til samsöngs grunnskólanema. Hér á Lestinni látum við það liggja á milli hluta en við báðum málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins þess í stað að velja fyrir okkur nokkur íslensk lög með sérlega vel sömdum íslenskum textum.