Borgarlína, reiðhjólabylting, rafhlaupahjól og rafbílar. Samgöngur eru að taka stakkaskiptum um þessar mundir. Enn um sinn munum við nýta innviðina sem bensínbílarnir kröfðust: götur, hraðbrautir, umferðafléttur og bílastæði - en þau mannvirki sem munu kannski helst verða gagnslaus á rafbílatímum eru bensínstöðvarnar. Við veltum fyrir okkur sögu og framtíð bensínstöðva í Lestinni í dag. Við heimsækjum Minjastofnun Íslands og Reiðhjólaverslunina Berlín sem hefur komið sér fyrir í gamalli bensínstöð við Háaleitisbraut
Við höldum áfram að kynnast notendum eða kannski frekar framleiðendur á samfélagsmiðlinum TikTok. Í dag hittum við Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur sem nýtir miðilinn einna helst í baráttu fyrir málefnum sem henni þykja brýn, en þar má nefna umhverfisvernd og nýju stjórnarskrána.
Gunnar Theodór Eggertsson, kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar, stekkur um borð og færir okkur fregnir úr kvikmyndahúsum. Hann rýnir annars vegar í gamanmyndina Múttuna, La Daronne, sem sýnd er á franskri kvikmyndahátíð í Bíó Paradís og hinsvegar í nýja íslenska gamanmynd: Hvernig á að vera klassa drusla.
Og við heyrum hljóðið í Gísla Darra Halldórssyni en stuttmynd hans, Já-fólkið, er á stuttlista fyrir Óskarsverðlaun ársins; er tilnefnd til tilnefningar.