Blautt heitt langt vont sumar nefnist nýjasta plata hornfirska dúettsins Kef Lavík, fjórða platan en sú fyrsta í fullri lengd. Hljómsveitin er kannski ekki allra vitorði en hefur eignast þéttan hóp heitra hlustenda, hálfgerðan költ-aðdáendahóp. Hljómur sveitarinnar og ekki síst textar eru einstakir í íslensku rapp og r'n'b senunni, flóknari og margræðari. Lestin brunar til Kef Lavíkur í dag.
Sýndaraðstoðarmaðurinn Alexa mun brátt geta rætt við notendur sína með kunnuglegum röddum fræga fólksins. Í gær tilkynnti Amazon að samningar væru í höfn við fyrstu stórstjörnuna og fleiri eru væntanlegar árið 2020.
Við heyrum annan hlutann í fjögurra pistla röð Ásgeirs Ingólfssonar þar sem hann skoðar mannkynssögu síðustu 250 ára út frá því hvernig hún birtist í nokkrum vel völdum myndasögum frá ýmsum heimshornum. Að þessu sinni skoðar hann tíma kaldastríðsins og meðal þess sem kemur við sögu er Vínarborg, hundurinn Laika, Graham Greene og Norður Kórea.
Rapparinn og raftónlistarmaðurinn Channel Tres hefur með tveimur þröngskífum á einu ári skotist langleiðina út fyrir himinhvolfið. Pumpandi húsgrúvin hans með nötrandi bassa og vælandi vesturstrandarhljómborðum hafa hrist rassa frá Compton til London, og djúp röddin fullvissar alla um að hann er við stjórnvölinn, The Controller.