Iceland Airwaves fór fram í 21. skipti um helgina. Þó hátíðin hafi verið smærri í sniðunum en oft áður var þar mikið um dýrðir. Davíð Roach Gunnarsson tónlistargagnrýnandi Lestarinnar hlýddi á gamlar kempur, gerði nýjar uppgötvanir, sá rokk, rapp, dans og svo líka þetta.
Harðkjarnapönkið þróaðist fyrst í suðurhluta Kaliforníu undir lok áttunda áratugarins. Þar spiluðu menn enn hraðar og harðar en kollegar þeirra í New York og Bretlandi. Í Lestinni í dag ræðir útsendari Lestarinnar í Los Angeles, Þórður Ingi Jónsson, við einn þátttakanda í þessari merkilegu tónlistarsenu, Jason Honea, söngvara hljómsveitarinnar Social Unrest.
Að venju á mánudegi fáum við til okkar fólk til að segja frá bók sem að þeirra mati varpar áhugaverðu ljósi á heiminn sem við búum í. Elínborg Harpa Önunardóttir, aðgerðasinni, segir frá bókinni King Kong-kenningin eftir franska feministann, rithöfundinn og kvikmyndagerðarkonuna Virginie Despentes. Viðfangsefnin eru kvenleikinn, nauðgunarmenningu og klám en nálgun hennar er nokkuð óvenjuleg í íslensku samhengi.
Þegar rætt er um leiðandi raddir innan tónlistarheimsins síðastliðinn áratug er poppsöngkonan Kesha ekki endilega ofarlega á lista. En ætti hún að vera það? Frá því Kesha rumskaði fyrst í baðkarinu árið 2009 hefur ferill hennar farið ótal kollhnísa, og það yfirleitt augnablikum áður en dægurtónlistin hélt í sömu átt. Er það kannski Kesha sem slær taktinn? Við veltum fyrir okkur sögu Keshu, stöðu poppsins og framtíð í Lestinni í dag.