Fyrst birtist fréttin á slúðurvefnum TMZ. Svo barst staðfesting frá fleiri miðlum, ESPN, CNN, LA Times: Ein skærasta stjarna körfuknattleiksheimsins er öll. Kobe Bryant, 13 ára dóttir hans og sjö aðrir létust í hörmulegu þyrluslysi í Kaliforníu í gær. Lestin fer yfir feril hans og menningarlegt gildi með blaðamanninum Kjartani Atla Kjartanssyni.
Andlát Kobe setti mark sitt á Grammy verðlaunahátíðina sem haldin var í gærkvöldi. Þrátt fyrir harmi þrungið yfirbragð tókst tónlistarfólkinu þó að deila út grammófónum og í sumum flokkum mörkuðu þeir jafnvel tímamót. Við lítum yfir hápunktanna.
Í skugga hinnar skæðu Kóróna-veiru héldu Kínverjar áramót nú um helgina. Ár svínsins leið undir lok og ár rottunnar gekk í garð. Við sökkvum okkur ofan í kínverska tímatalið og heyrum hvernig fólk fagnar nýárinu í þessu fjölmennasta ríki heims. Hafliði Sævarsson heimsækir Lestina og segir frá.
Tómas Ævar Ólafsson flytur síðasta hlutann í þriggja pistla röð sinni um veggjakrot.