Pálmi Freyr Hauksson heldur áfram að fjalla um sjónvarp frá ýmsum hliðum hér í Lestinni. Að þessu sinni fjallar hann um það hvernig nýstárlegir hlutir geta virst algjörlega óskiljanlegir, hvort sem það eru tónverk, menn á hestum eða grínþættir. Fóstbræður, The Office, Ali G og The Rehearsal koma meðal annars við sögu.
Krakkaveldi eru samtök barna sem vilja breyta heiminum. Samtökin voru stofnuð árið 2019 og voru útskriftarverkefni Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur frá Listaháskóla Íslands. Síðan þá hafa krakkarnir í Krakkaveldi tekið sér margt fyrir hendur, æft sig í borgaralegri óhlýðni, tattúverað fullorðna og ögrað valdasambandi barna og fullorðinna. Þeirra nýjasta verkefni var að ritstýra apríl tölublaði Reykjavík Grapevine. Við ræðum við Brynju og Yrsu, meðlimi Krakkaveldis.
Chanel Björk Sturludóttir var beðin um að lýsa íslenskri menningu þar sem hún var stödd á pöbb í London nýverið. Það fyrsta sem kom upp í huga hennar var hvít menning. En hvað er hvít menning?