Við hefjum þáttinn á því að huga að íslenskum arkítektúr en höldum samt út í heim. Fjöldi íslenskra arkitekta hafa getið sér gott orð erlendis fyrir framúrskarandi hönnun og húsagerðarlist. Í nýjum þáttum í sjónvarpi Símans, Að heiman, heimsækir Freyr Eyjólfsson fjölmiðlamaður valda íslenska arkítekta víðsvegar í heiminum, spjallar við þau, virðir fyrir sér byggingar þeirra og þau velta fyrir sér stílum, áherslum og áskorunum, ekki síst áskorunum framtíðar.
Kolbeinn Rastrick, kvikmyndarýnir Lestarinnar fór að sjá myndina Á ferð með mömmu. Á ferð með mömmu er samkvæmt Kolbeini vegamynd með þurran húmor sem heldur í gegn og dregur fram nostalgíu á sannfærandi hátt.
Við veltum fyrir okkur íslenskum hrunbókmenntum og kreppukvenhetjum. Á föstudag og laugardag fer fram hugvísindaþing Háskóla Íslands. Dagskráin er fjölbreytt í ár og á föstudaginn verður málstofa haldin í Árnagarði þar sem hetjur í samtímabókmenntum verða skoðaðar. Rósa Hjörvar og Gunnþórunn Guðmundsdóttir flytja þar erindi ásamt Veru Knútsdóttur, bókmenntafræðingi sem sagði okkur frá kreppukvenhetjum.