Sumir myndu kalla fimmtudagsviðtölin í Lestinni drottningarviðtöl og það er svo sannarlega nafn með rentu í þetta skiptið. Fimmtudagsgestur Lestarinnar þessa vikuna er Kristín Þorkelsdóttir, myndlistarkona og einn helsti brautryðjandi landsins á sviði grafískrar hönnunar. Hún á ótal þjóðþekkt verk sem voru og eru hvað mest áberandi í hversdagsleikanum: matarumbúðir, bækur, vörumerki, og peningaseðla - en nú stendur yfir sýning í Hönnunarsafni Íslands, þar sem gefur að líta verkin sjálf og í sumum tilvikum, skissur og uppköst að þeim.