Salvör Bergmann rýnir í sjónvarpsþættina The Sandman á Netflix, sem byggja á samnefndum myndasögum eftir Neil Gaiman. Salvör naut þess að horfa en hefði viljað sjá meiri áhættu tekna í frásögninni, henni fannst stíllinn sem var valinn helst til krúttlegur og fjölskylduvænn, en það veldur því að útkoman fellur snyrtilega í formúlukenndan meginstrauminn.
Fyrir tveimur vikum fengum við tvo plötusnúða, þá Johnny Blaze og Hakka Brakes til að kryfja til mergjar lag sem var í uppáhaldi hjá þeim. Og núna endurtökum við leikinn með plötusnúðinum Þóru Sayaka. Hún kemur með lagið Clear með Cybotron.
Og við heyrum um minni framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs Íslands á sama tíma og endurgreiðslur til stórra erlendra kvikmyndaverkefna eru aukin. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru ósáttir. ?Ráðist að grunnstoðum og Kvikmyndasjóði slátrað,? segir Ragnar Bragason, leikstjóri á Facebook og ?Menningarlegt stórslys,? segir Reynir Lyngdal starfsbróðir hans á sama vettvangi. Við ræðum við þau Hilmar Sigurðsson framkvæmdastjóra Saga Film og Kristínu Andreu Þórðardóttur kvikmyndagerðarkonu og framleiðanda um málið.