Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstýrði sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd árið 2011, grínmyndinni Á annan veg. Það var listræn ákvörðun hjá leikstjóranum að hafa enga kvikmyndatónlist eða svo kallað score í myndinni, aðra en þá tónlist sem ómaði úr kasettutæki sögupersónanna. President Bongo, Stephan Stephensen, sá myndina í bíó og bauðst til þess að gera score sem varð síðan aukaefni á DVD-myndinni. Nú á miðvikudaginn, rúmum áratug eftir frumsýninguna, verður myndin sýnd í Bíó Paradís, með þessari eftir-á-gerðu kvikmyndatónlist. Þeir Stephan og Hafsteinn Gunnar eru gestir okkar í Lestinni í dag.
Pálmi Freyr Hauksson, hefur verið að flytja pistla hér í Lestinni um sjónvarp frá ýmsum hliðum. Í dag heyrum við hugleiðingar hans um Apple TV þættina Severance, sem eru í leikstjórn Ben Stiller og tengingu þáttanna við bókina Homo Deus.
Við gerum upp Eurovision-helgina. Það fór eins og spáð hafði verið, hin sænska Loreen bar sigur úr býtum og það voru atkvæði dómnefndar sem tryggðu henni sigurinn. Margir hafa tjáð skoðun sína á niðurstöðunum, rýnt í allskyns Eurovision tölfræði. Við heyrum í Viktori Orra Valgarðssyni sem bar saman atkvæði dómnefnda og símakosninga í Eurovision keppnum frá 1999-2019.