Leikritið Eyja var frumsýnt í Þóðleikhúsinu í nóvember sem sett er upp af sviðslistahópnum O.N. Hópurinn setur upp tvítyngdar sýningar, á íslensku og íslensku táknmáli. Þetta er fyrsta verk hópsins og jafnframt fyrsta sýning af þessu tagi sem sett er upp í þjóðleikhúsinu, sýning sem flutt er á íslenskri tungu til jafns við táknmál. Þetta er verk um tengsl og tengslaleysi, sorgarferli, samskipti og löngunina eftir því að öðlast hlutverk í lífi sinna nánustu. Tveir af aðstandendum sýningarinnar, Adda Rut Jónsdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir eru gestir Lestarinnar.
Davíð Roach Gunnarsson rýnir í nýjustu plötu tónlistarkonunnar Gugusar sem kom út í nóvember síðastliðinn, 12:48. Davíð segir hana eina allra bestu íslensku plötu síðasta árs og með henni hafi Gugusar farið úr því að vera stórkostlega hæfileikaríkt og efnilegt ungstirni yfir í að vera fullskapaður listamaður með sína eigin sýn, á alþjóðlegan mælikvarða.